Uppreisnarinnar minnst í Ungverjalandi

Þess er nú minnst að fimmtíu ár eru liðin frá …
Þess er nú minnst að fimmtíu ár eru liðin frá uppreisninni í Ungverjalandi Reuters

Í dag er þess minnst að fimmtíu ár eru liðin frá uppreisninni í Ungverjalandi en meðal þeirra sem taka þátt í viðburðinum er Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ásamt fleiri þjóðarleiðtogum. László Sólyom forseti Ungverjalands og Ferenc Gyurcsány forsætisráðherra taka á móti hinum opinberu gestum í ungversku þjóðaróperunni í dag. Í kjölfarið fylgir menningardagskrá og hátíðarkvöldverður í Þjóðarlistasafninu.

Mánudaginn 23. október heldur dagskráin áfram með athöfn við Minnisvarðann um fórnarlömb atburðanna 25. október 1956 og í ungverska þjóðþinginu þar sem þjóðarleiðtogar votta fórnarlömbum frelsisbaráttu Ungverja og uppreisnarinnar 1956 virðingu sína.

Þann 25. október 1956 tóku allt að eitt hundrað manns þátt í kröfugöngu í Búdapest og breytinga krafist. Stjórnvöld kölluðu sovéskar herdeildir til og skotbardagar hófust á götum úti í höfuðborginni. Áður en uppreisninni lauk voru á þriðja þúsund Ungverjar látnir og um 13 þúsund særðir.

Þjóðarleiðtogar hafa jafnframt sent sérstakar kveðjur í tilefni hálfrar aldar afmælis uppreisnarinnar í Ungverjalandi og verða þær gefnar út í minningabók.

Fjölmargir þjóðarleiðtogar og fulltrúar ríkja taka þátt í þessari minningarathöfn. Þeirra á meðal má nefna Harald Noregskonung, Tarja Halonen forseta Finnlands, Horst Köhler forseta Þýskalands, Juan Carlos konung Spánar, Mary McAleese forseta Írlands auk forseta frá fjölmörgum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka