Forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, sagði í dag að hann gæti bundið endi á ofbeldið í Írak á hálfu ári ef Bandaríkjastjórn léti stjórnvöld í Írak hafa þau vopn sem til þyrfti og aukið vald yfir eigin her og löggæslu. Ráðherrann gagnrýndi harðlega hvernig Bandaríkjamenn hefðu tekið á öryggismálum í Írak og neitaði því að hann ynni eftir tímaáætlun sem Bandaríkjastjórn hefði samþykkt.
Al-Maliki sagði í viðtali við Reuters fréttastofuna að hann óttaðist ekki að Bandaríkjamenn kæmu honum frá völdum þó svo Bandaríkjaforseti hefði sagt í gær að þolinmæði Bandaríkjastjórnar væri „ekki ótakmörkuð.“ Bush sagðist myndu styðja Maliki svo lengi sem hann væri ,,fastur fyrir."
Maliki sagði fjölþjóðaherinn í landinu bera mikla ábyrgð á því hvernig öryggismálum væri nú komið í landinu. ,,Ég er forsætisráðherra og æðsti stjórnandi hersins en má samt ekki hreyfa eina einustu herdeild án þess að fá samþykki fyrir því frá fjölþjóðahernum vegna umboðs Sameinuðu þjóðanna," sagði al-Maliki.