Forseti Bandaríkjanna, George W. Bush, og eiginkona hans Laura kusu á slökkviliðsstöðinni í heimabæ þeirra Crawford í Texas. Eftir að hafa kosið hvatti Bush bandarísku þjóðina til þess að taka þátt í þingkosningunum enda byggi lýðræðisþjóðfélagið á því að fólk taki þátt í því og léti rödd sína heyrast.
Forsetahjónin munu fylgjast með kosningatölum í kvöld og í nótt frá Washington.
Samkvæmt skoðanakönnunum hefur forskot demókrata minnkað undanfarið og repúblikanar hafa sótt í sig veðrið.
Repúblikanar hafa haft meirihluta í báðum þingdeildum allt frá þingkosningunum 1994. Þar eru 435 sæti og verður kosið um öll þeirra sem og 33 sæti í öldungadeildinni af hundrað. Til að ná meirihluta þurfa demókratar að bæta við sig 15 sætum í neðri deildinni og sex í þeirri efri.
Repúblikanar eru með 232 sæti í fulltrúadeildinni og demókratar 202. Einn óháður situr í deildinni. Repúblikanar eru með 55 sæti í öldungadeildinni, demókratar 44 og óháðir eitt sæti.
Verður kosið um 17 sæti sem demókratar eru með, óháð sæti og 15 sæti repúblikana. Þá verða kosnir 36 ríkisstjórar og eiga demókratar 14 sæti að verja en repúblikanar 22.