Demókratar hafa nú bætt við sig fjórða þingsætinu af sex sem þeir þurfa til að ná meirihluta í öldungadeild bandaríska þingsins. Enn er óvíst um niðurstöður í ríkjunum Virginíu og Montana, demókratar hafa forskot í báðum ríkjum, en mjög mjótt er á mununum og þykir líklegt að í Virginíu a.m.k. komi til endurtalningar.
Repúblikanar og demókratar hafa sent lögfræðinga sína til að skoða utankjörstaðaatkvæði og atkvæði sem talin voru á kjördag í Virginíu. James Webb, frambjóðandi demókrata lýsti yfir sigri í dag, þrátt fyrir að hafa innan við átta þúsund atkvæða forskot, en George Allen, sitjandi þingmaður repúblikana hefur hvatt stuðningsmenn sína til að fylgjast grannt með talningu þeirra atkvæða sem eftir eru.
Ef demókratar ná einum manni til viðbótar verður hlutfallið jafnt, þá fær forseti þingsins atkvæðisrétt, en það er varaforseti Bandaríkjanna, Dick Cheney.
Demókratinn Jon Tester hafði fengið 3.317 fleiri atkvæði en núverandi öldungardeildarþingmaður repúblikana í Montana þegar 83% atkvæða höfðu verið talin. Þar hefur talning tafist vegna bilana í kosningavélum.