Nancy Pelosi, sem verður næsti forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, krafðist í dag afsagnar Donalds Rumsfelds, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. George W. Bush, Bandaríkjaforseti, mun innan skamms halda blaðamannafund þar sem hann tjáir sig um úrslit þingkosninganna í Bandaríkjunum í gær.
„Ég tel að forsetinn verði að gefa til kynna að hann ætli að breyta um stefnu," sagði Pelosi. „Hann gæti byrjað á máli sem ekki aðeins fjöldi demókrata meðal almennings í Bandaríkjunum heldur einnig talsmenn hersins hafa lýst skoðun á. Sem er að skipta um forustu í Pentagon."
Demókratar fengu meirihluta í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í þingkosningum í gær. Útlit er fyrir að þeir fái einnig meirihluta í öldungadeildinni en úrslit liggja ekki enn fyrir í tveimur ríkjum.