Hugsanlegt morðvopn í Palme-málinu fundið

Olof Palme.
Olof Palme. AP

Sænskir fjölmiðlar skýrðu frá því í morgun, að skammbyssa af sömu gerð og notuð var til að myrða Olof Palme, þáverandi forsætisráðherra Svíþjóðar árið 1986, hafi fundist í stöðuvatni og verið afhent lögreglu.

Blaðið Expressen segist hafa fengið nafnlausa ábendingu um að morðvopnið væri að finna í vatni nálægt Mockfjärd í Svíþjóð. Blaðið réði kafara, sem fundu byssuna og var hún enn í leðurhulstri. Hefur Expressen afhent lögreglu vopnið, sem er af gerðinni Smith & Wesson.

Að sögn sænsku fréttastofunnar TT er talið, að byssan hafi verið notuð þegar pósthús var rænt árið 1983. Rannsókn sýndi, að kúla sem hljóp úr byssunni þá var eins og kúlur, sem fundust á staðnum þar sem Palme var myrtur.

Olof Palme var skotinn til bana þegar hann kom út úr kvikmyndahúsi í Stokkhólmi ásamt Lisbet konu sinni að kvöldi 28. febrúar árið 1986. Morðinginn lagði á flótta og tók byssuna sem hann notaði með sér.

Lisbet Palme bar síðar kennsl á smáglæpamanninn og fíkilinn Christer Pettersson og fullyrti að hann væri morðinginn. Pettersson var fundinn sekur um morðið árið 1989 en áfrýjunardómstóll ógilti dóminn vegna skorts á sönnunargögnum. Pettersson lést árið 2004.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert