Fréttastofan AFP hefur það eftir ónafngreindum embættismanni í varnamálaráðuneyti Bandaríkjanna að hersveitir verði sendar til Íraks fyrir lok þessa mánaðar í samræmi við áætlanir um að fjölga í herliði Bandaríkjamanna í Írak um allt að 20.000 hermenn. Búist er við því að Bush Bandaríkjaforseti tilkynni um fjölgunina í ræðu sinni um breytingar á stefnu Bandaríkjamanna í Írak.
Fyrsta liðið sem fer til Íraks er sagt vera 2. stórfylki 82. deildar flughersins, sem nú er í viðbragðsstöðu í Kúvaít.
Bush tilkynnir líklega á morgun að 20.000 hermenn verði settir í viðbragðsstöðu, en ekki hafi verið ákveðið hve margir þeirra fari á endanum til Íraks eða hve lengi þeir verði þar. Hins vegar herma fregnir að Bush muni gefa í skyn að ákveðinn tímarammi verði settur um það hve lengi bandarískur her verði í landinu.