Það þykir ganga kraftaverki næst að ástralskur kafari skyldi sleppa úr kjafti hvíthákarls sem hafði bitið um höfuðið á honum, að því er félagar mannsins greindu frá í dag.
Tennur hákarlsins brutu kafaragrímu Ástralans, Eric Nerhus, og brákuðu á honum nefið þar sem hann var við köfun ásamt syni sínum og hópi vina í morgun.
Annar kafari tjáði fréttamönnum að hákarlinn hefði kyngt höfðinu á Nerhus og síðan hefðu tennur hans læsts um brjóstkassann áður en Nerhus tókst að losa sig úr gini hákarlsins, sem var um þriggja metra langur.
„Eric er sterkur strákur og feiknahraustur, en það tekur á að vera étinn af fiski,“ sagði félagi Nerhus.
Björgunarþyrla flutti Nerhus á sjúkrahús í Wollongong. Hann er alvarlega slasaður, en ástand hans stöðugt. Hann missti mikið blóð og er í losti.
Atburðurinn átti sér stað úti fyrir suð-austurströnd Ástralíu, þar sem allmargir hvítháfar hafa sést undanfarið þar sem sjórinn hefur verið óvenju kaldur.
Síðan 2000 hafa hákarlar orðið tíu manns að bana við Ástralíustrendur, nú síðast fyrr í mánuðinum þegar 21 árs kona lést eftir hákarlsárás á vinsælli ferðamannaströnd.