Ítalskur dómari hefur fyrirskipað að réttað verði yfir 26 Bandaríkjamönnum, sem flestir eru starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar CIA, sem eru sakaðir um að hafa rænt egypskum klerki í Mílanó árið 2003.
Fulltrúar CIA eru sagðir hafa handtekið Osama Mustafa Hassan í borginni og þaðan hafi verið flogið með hann til Egyptalands. Þar segist Hassan hafa sætt pyntingum, segir á fréttavef BBC.
Dómarinn bendlar einnig fimm Ítala við málið, þ.á.m. Nicolo Pollari, sem er fyrrum yfirmaður leyniþjónustu ítalska hersins.
Dómsmálið myndi vera það fyrsta sem snýr að leynilegum aðgerðum bandarísku leyniþjónustunnar sem kallast „óvenjulegt framsal“.
Þegar um framsal er að ræða þá eru þeir sem eru sakaðir um hryðjuverk fluttir úr einu landi í annað, en margir sem hafa verið framseldir með þessum hætti segjast hafa þurft að þola pyntingar.
Ítalska ríkisstjórnin hefur ekki gert upp hug sinn hvort hún vilji óska eftir því að hinir ákærðu verði framseldir eður ei, en talið er að fólkið hafi snúið aftur til Bandaríkjanna.
Meðal þeirra sem eru ákærðir í málinu er fyrrum stöðvarstjóri aðgerða CIA í Mílanó, Robert Seldon Lady. Hann segist hafa mótmælt því að klerknum yrði rænt en að því hafi verið hafnað.
Hann er sagður hafa snúið aftur til Bandaríkjanna. Hann skildi eftir sig glæsivillu sem hann keypti með því að eyða ævisparnaði sínum.