Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Harry Reid, sem er leiðtogi demókrata í bandarísku öldungadeildinni, lýsti því yfir í sjónvarpi í gær að innrásin í Írak hafi verið versta ákvörðun sem bandarísk stjórnvöld hafi nokkru sinni tekið í utanríkismálum. Þá sagði hann það jafnvel skaðlegra ímynd Bandaríkjanna en Víetnamstríðið hafi verið. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
“Þetta stríð er mjög alverlegt mál. Það byggir á verstu ákvörðun sem tekin hefur verið í utanríkismálum í sögu þessa lands,” sagði hann í sjónvarpsþættinum Late Editionz á CNN-sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi.
“Þannig að okkur ber að taka það mjög alvarlega. Við erum í mjög djúpum vanda sem við þurfum að grafa okkur upp úr."
Tony Snow, talsmaður Hvíta hússins í Washington kveðst þó ósammála Reid. “Það er staðreynd að það var mikilvægt að koma Saddam Hussein frá völdum í Írak,” sagði hann er ummælin voru borin undir hann í þættinum. “Já. Stríðið er erfitt en lausnin felst ekki í því að fara heldur í því að sjá herliði okkar fyrir þeim stuðningi og tækjabúnaði sem það þarf á að halda til að ljúka verki sínu og reka á sama tíma á eftir Írökunum.”