Konur eru hlutfallslega flestar á þingi í Svíþjóð, Kosta Ríka og Rúanda, og auk þess var hlutfall kvenna á þingum í heiminum almennt hærra í fyrra en nokkru sinni fyrr, að því er Alþjóðlegu þingmannasamtökin greindu frá í dag.
Hátt í 17% þingmanna í heiminum eru konur. Hæst er meðaltalið á Norðurlöndum, eða 40,8%, eftir að fjölmargar konur voru kosnar á þing í Svíþjóð á síðasta ári.
Þar í landi eru 47,3% þingsæta skipuð konum, og auk þess gegna konur embættum dómsmálaráðherra, ráðherra málefna ESB, ráðherra alþjóðaþróunarmála og orkumálaráðherra.
Reyndar eru þingkonur hlutfallslega flestar í Rúanda, þar sem 48,8% þingsæta eru skipuð konum.
Þingmannasamtökin fagna einnig bættum hlut kvenna í Vesturheimi undanfarinn áratug, einkum á Kosta Ríka, þar sem 38,6% þingsæta eru skipuð konum. Að meðaltali eru konur í 20% þingsæta í Norður-, Mið- og Suður-Ameríku, og er þetta hlutfall hvergi hærra í heiminum nema á Norðurlöndum. Það er öllu lægra í Evrópu.