John Edwards, einn þeirra sem sóst hefur eftir útnefningu sem forsetaefni bandaríska Demókrataflokksins, mun væntanlega hætta kosningabaráttunni tímabundið og kann að draga sig alfarið í hlé en eiginkona hans hefur að nýju greinst með brjóstakrabbamein.
Edwards hefur boðað til blaðamannafundar síðar í dag þar sem hann mun skýra frá ákvörðun sinni.
Elizabeth Edwards, sem er 57 ára, greindist með krabbamein árið 2004 undir lok kosningabaráttunnar fyrir forsetakosningarnar þá en Edwards var varaforsetaefni Johns Kerrys, frambjóðanda demókrata. Talið var að Elizabeth hefði fengið bata en sjúkdómurinn hefur nú tekið sig upp að nýju.
Edwards er nú þriðji vinsælasti frambjóðandi demókrata til forsetaembættisins samkvæmt skoðanakönnunum á eftir þeim Hillary Clinton og Barack Obama.