Nicolas Sarkozy myndi fá 54% í síðari umferð frönsku forsetakosninganna en Ségolène Royal 46% ef kosið væri nú, samkvæmt skoðanakönnun, sem IPSOS stofnunin gerði í kvöld strax eftir að fyrstu kosningaspár eftir fyrri umferð kosninganna í dag birtust. Síðari umferðin fer fram 6. maí.
Um var að ræða símakosningu og var hringt í rúmlega 1000 manns eftir að ljóst varð, að kosið verður milli þeirra Sarkozy og Royal í síðari umferð. IPSOS sagði, að 88% þeirra sem svöruðu í könnuninni í kvöld hefðu sagst vera ákveðin í afstöðu sinni.
Þegar búið var að telja 30 milljónir atkvæða, eða rúmlega 75%, hafði Sarkozy fengið 30%, Royal 25%, miðjumaðurinn Francois Bayrou hafði fengið 18% og hægriöfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen 11% sem er það minnsta, sem hann hefur fengið í forsetakosningum.