Lögregla í Kaupmannahöfn segir að 15 manns hafi verið handteknir þegar lítill hópur ungmenna, sem tóku þátt í annars friðsamlegum mótmælaaðgerðum, kveikti í ruslatunnum, braut rúður í húsum á Norðurbrú og kastaði flöskum fullum af málningu í lögreglumenn. Ungmennin vildu mótmæla niðurrifi Ungdomshuset í byrjun mars.
Mótmælaaðgerðirnar hófust utan við Vestre fangelsið þar sem fólk, sem handtekið var í kjölfar óeirða í mars situr enn í fangelsi. Eystri landsréttur dæmdi í gær, að átta manns skyldu sæta gæsluvarðhaldi áfram en héraðsdómur í Kaupmannahöfn hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að fólkið skyldi látið laust.