Samningamenn Evrópuþingsins og aðildarríkja Evrópusambandsins hafa náð samkomulagi um að setja þak á gjaldskrá farsímafélaganna fyrir svonefnd reikisímtöl. Samkvæmt þessu verður hámarksverð 0,49 evrur á mínútu fyrir að hringja í útlöndum og 0,24 evrur fyrir að taka á móti slíku símtali.
Evrópuþingið þarf að greiða atkvæði um samkomulagið og aðildarríki ESB þurfa að staðfesta það.
Miðað er að því að lækka kostnað farsímaeigenda við símtöl erlendis um allt að 70%. Farsímafélög hafa sagt, að þetta kunni að leiða til þess að gjaldskrá fyrir innanlandssímtöl hækki.