Um 5.000 manns tóku í dag þátt í göngu samkynhneigðra í Varsjá, höfuðborg Póllands. Fór gangan frá þinghúsinu í borginni og um miðborg Varsjár og leiddi stór bifreið skeytt rauðum, bláum, grænum og fjólubláum blöðrum gönguna og hljómaði tónlist. Margir báru skilti þar sem fordómum gegn samkynhneigðum var mótmælt en mikið lið lögreglu fylgdi göngunni.
Kröfur samkynhneigðra verða æ háværari í Póllandi en íhaldssamir stjórnmálaleiðtogar hafa talað opinskátt um andúð sína á samkynhneigð og krafðist menntamálaráðherra landsins, Roman Giertych, þess á miðvikudag að „áróður samkynhneigðra” yrði bannaður í pólskum skólum.
Pólsk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd af Evrópusambandinu fyrir að ýta undir fordóma, ríkisstjórn forsætisráðherrans Jaroslaw Kaczynski hefur gert það að forgangsverkefni að vernda kaþólsk gildi, en bróðir hans, forsetinn Lech Kaczynski bannaði göngur samkynhneigðra meðan hann var borgarstjóri Varsjár.