Fidel Castro Kúbuleiðtogi segir í grein sem birt var í dag að George W. Bush Bandaríkjaforseti hafi lýst því yfir að hann bíði dauða síns en að hann geti þó ekki drepið hugsjónir sínar. Í greininni, sem birt er á forsíðu blaðsins Granma, segir Castro að Bush hafi sagt er hann var spurður um stefnu sína gagnvart Kúbu: „Ég er harðlínuforseti sem bíð þess bara að Castro deyi." Castro greinir ekki frá því hvar eða hvenær Bush á að hafa látið þessi ummæli falla en segir: „Ég verð hvorki sá fyrsti né sá síðasti sem Bush gefur fyrirmæli um að verði sviptur lífi.” Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Castro gagnrýnir einnig Bandaríkjastjórn í greininni fyrir að verja fjármunum til hervæðingar á sama tíma og fólk í þróunarlöndunum þjáist af hungri. „Ég spyr sjálfan mig að því hversu marga lækna sé hægt að útskrifa fyrir þá hundrað milljarða dala sem Bush fær í hendur á einu ári til að halda áfram að sá sorg í Írak og á bandarískum heimilum,” skrifar hann. „Svarið er: 999.990 lækna sem gætu sinnt þeim tveimur milljörðum manna sem njóta engrar læknisþjónustu í dag.”
Castro, sem er áttræður, hefur ekki sést opinberlega frá því hann gerði opinberlega grein fyrir því fyrir tíu mánuðum að hann ætti við veikindi að stríða. Samstarfsmenn hans og vinir segja hann vera að ná heilsu á ný en með hverjum mánuðinum sem líður þykir þó ólíklegra að hann taki við völdum á Kúbu á ný.