Nýr stjórnmálaflokkur á Grænlandi vill að Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar eða aðrir þar til bærir aðilar, greiði Grænlendingum bætur fyrir þau áhrif, sem loftslagsbreytingar hafa haft á grænlenskt samfélag. Segist flokkurinn, sem nefnist Aalisartut Piniartullu og tengist fiski- og veiðimönnum, ætla að hefja undirskriftasöfnun til stuðnings þessum kröfum.
„Það leikur enginn vafi á, að loftslagsbreytingar hafa orðið af mannavöldum í iðnríkjunum og þær hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir grænlenskt samfélag," sagði Leif Fontaine, formaður flokksins, við grænlenska útvarpið.
Hann segir, að takist að fá ríkar þjóðir eða ríkjabandalög til að greiða bætur verði þær lagðar í sjóð sem hafi það hlutverk að styðja nýja atvinnustarfsemi á Grænlandi.