Fólk í umönnunarstörfum hefur lagt niður störf í 50 sveitarfélögum af 98 í Danmörku til að mótmæla slæmum kjörum. Óskar starfsfólkið m.a. eftir hærri launum, fleiri ráðningum og að fleiri fái fullt starf. Fleiri bætast stöðugt í hópinn, en í gær hafði starfsfólk í 38 sveitarfélögum lagt niður störf.
Verkföllin hafa þó ekki borið árangur enn sem komið er, en sveitastjórnir víða neita að setjast að samningaborðinu fyrr en verkföllunum verði hætt. Í Glostrup hefur fólk í umönnunarstörfum í heilbrigðis- og félagslega kerfinu lagt niður vinnu í fimm daga, en talskona starfsmannanna segir að fólk hafi ekki efni á að vera lengur í verkfalli.
Ætlunin er þó að fara í skyndiverkföll í sumar og haust þar til samningar nást.