Mikið hefur rignt á hinum Norðurlöndunum undanfarnar vikur, þar á meðal í Noregi þar sem ár hafa flætt yfir bakka sína og svæði hafa verið rýmd vegna skriðuhættu. Úrkoman hefur þó haft þau áhrif, að öll uppistöðulón norskra virkjana eru full og raforkuframleiðsla er í hámarki. Þetta hefur leitt til verðlækkunar á raforkuverði en Norðmenn selja m.a. rafmagn til Danmerkur og fleiri nágrannalanda.
Ritzaufréttastofan segir, að dönsk raforkufélög kaupi nú sem mest þau mega af ódýrri raforku frá Noregi og þótt takmarkanir séu á því hve mikið rafmagn sé hægt að flytja þaðan hafi þetta áhrif á verðið.