Myndbandsupptaka, sem náðist af því er brasilísk farþegaþota brotlenti í Sao Paulo í fyrrakvöld, virðist sýna að vélin hafi komið inn til lendingar á meiri hraða en önnur flugvél, sem kom inn til lendingar á vellinum á svipuðum tíma en mikil rigning var og aðstæður slæmar er slysið varð. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Samkvæmt því sem fram kemur á upptöku úr eftirlitsmyndavél brasilíska flugumferðareftirlitsins, tók það hina vélina 11 sekúndur að aka flugbrautina á Congonhas flugvelli en vélina sem fórst einungis þrjár sekúndur. Á myndbandinu sést ekki er flugvélin rennur út af flugbrautinni. Þar sjást hins vegar blossar frá sprengingunni sem varð er flugvélin hafnaði á bensínstöðinni.
Þá hafa flugmálayfirvöld greint frá því að flugstjóri vélarinnar hafi reynt að ná henni aftur á loft eftir lendingu en mistekist það.
186 manns, sem voru um borð í vélinni, og að minnsta kosti fimmtán manns á jörðu niðri létust er flugvélin rann út af flugbrautinni eftir lendingu og hafnaði á bensínstöð utan flugvallarins.