Réttarhöld yfir 15 fyrrum samverkamönnum Saddams Husseins hófust í dag. Mennirnir eru sakaðir um að hafa átt þátt í að brjóta uppreisn sjía múslíma á bak aftur árið 1991. Hussein var tekinn af lífi eftir að hann var fundinn sekur um glæpi gegn mannkyni.
Meðal þeirra sem réttað er yfir er frændi Husseins, Ali Hassan al-Majid (betur þekktur sem Eiturefna-Ali). Hann hefur þegar verið dæmdur til dauða í öðrum réttarhöldum, en hann var sakaður um þjóðarmorð og glæpi gegn mannkyni.
Þetta eru þriðju réttarhöldin sem yfirrétturinn í Írak dæmir í, en dómstóllinn var settur á fót með aðstoð Bandaríkjanna til að hægt yrði að rannsaka þá glæpi sem voru framdir í stjórnartíð Saddams Husseins.
Um 100.000 sjítar eru sagðir hafa verið myrtir þegar menn hliðhollir Hussein brutu uppreisn þeirra í Suður-Írak á bak aftur. Hermenn sem höfðu gerst liðhlaupar auk óbreyttra borgara stóðu fyrir uppreisninni. Hermennirnir höfðu flúið átökin í Kúveit.