Þúsundir íbúa í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín á undanförnum dögum vegna flóða, þrumuveðurs og hvassviðris. Hafa að minnsta kosti 23 látið lífið af völdum flóðanna. Í Suðausturríkjum landsins er hins vegar kæfandi hiti og hafa að minnsta kosti 25 dauðsföll verið rakin til hitans á síðustu vikum.
Aurskriður hafa m.a. tafið björgunarstörf í Minnesota, Oklahoma, Texas, Ohio, Iowa og Wisconcin þar sem miklar rigningar hafa valdið flóðum. Þrír létu lífið í Wisconcin á miðvikudag þegar eldingu laust niður í rafmagnsmastur og háspennuvír lenti í vatnspolli við strætisvagnaskýli. Vatnsveðrið er rakið til hitabeltisstormsins Erins, sem fór yfir Oklahoma og Texas fyrir viku.
Þá slösuðust fjörutíu manns í Chicago í gær þegar þak hrundi í miklu þrumuveðri, sem gekk yfir borgina. Tré rifnuðu upp með rótum í vindhviðum og rafmagnsstaurar brotnuðu.
Í Tennessee, Georgíu og Alabama hafa hins vegar verið gífurlegir þurrkar og hiti síðustu vikur og hafa aldargömul hitamet fallið. Í Athens í Georgíu hefur hitinn farið yfir 40 stig í 13 daga það sem af er ágúst en að meðaltali mælist slíkur hiti aðeins í einn dag í ágúst.