Leigubílstjórar í New York hóta verkfalli

Leigubílaverkfall getur skapað mikinn vanda í New York.
Leigubílaverkfall getur skapað mikinn vanda í New York. mbl.is/Einar Falur

Félag leigubílstjóra í New York hvetur meðlimi sína til að fara í tveggja daga verkfall á miðvikudaginn kemur. Bílstjórarnir eru óánægðir með nýjar reglur sem neyða þá til að setja gps-staðsetningartæki og greiðslukortaposa í bílana. Í félaginu eru um fimmtungur þeirra sem hafa leyfi til að aka almenningi gegn gjaldi í borginni en önnur samtök bílstjóra eru andsnúin verkfallinu.

„Ég vona að menn haldi ró sinni,” sagði Michael Bloomberg borgarstjóri og bætti því við að það væri hvorki bílstjórunum né borginni í hag ef þeir færu í verkfall.

Í borginni eru 13 þúsund leigubílar á skrá og þurfa þeir að hafa snertiskjá og staðsetningartæki fyrir næstu skoðun frá og með 1. október.

Tæknin gerir farþegum kleift að greiða með greiðslukortum, athuga fréttir, fylgjast með ferðalaginu á korti á skjánum og leita að veitingahúsum og annarri þjónustu í borginni.

Bílstjórarnir óttast að fylgst verði með ferðum þeirra og að þeir komi til með að bera kostnað af greiðslukortaviðskiptunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka