Vladímír Pútín Rússlandsforseti lýsti því yfir í dag að hann liti á Viktor Zúbkov, nýjan forsætisráðherra Rússlands, sem einn af fimm mönnum sem komi til greina sem arftaki sinn. Hann greindi ekki frá því hverjir hinir fjórir eru en sagði Zúbkov mikinn fagmann og frábæran embættismann.
Dúman, neðri deild rússneska þingsins, staðfesti í dag tilnefningu Zúbkov í embætti forsætisráðherra landsins en vangaveltur hafa verið uppi um það að Pútín ætli honum að taka við af sér eftir að hann tilnefndi hann óvænt í embættið á miðvikudag.
Zúbkov, sem var nánast óþekktur stjórnmála- og embættismaður áður en Pútín tilnefndi hann í embætti forsætisráðherra, sagði í ræðu í dag, að hann legði áherslu á að tryggja efnahagslegan stöðugleika og styrkja varnir landsins. Þá sagist hann ekki útiloka neitt varðandi framhaldið. „Komi ég einhverju í verk sem forsætisráðherra þá útiloka ég það ekki,” sagði hann er hann var spurður að því hvort hann gæti hugsað sér að verða arftaki Pútíns.
Þingkosningar verða til Dúmunnar 2. desember og 2. mars fara fram forsætakosningar í Rússlandi. Pútín getur ekki boðið sig fram til endurkjörs þar sem hann hefur setið tvö kjörtímabil í embætti forseta. Stjórnmálaskýrendur segja, að sá frambjóðandi, sem Pútín styður, sé nánast öruggur með að verða kjörinn.