Foreldrar Madeleine óttast að hún sé látin

Kate og Gerry McCann.
Kate og Gerry McCann. Reuters

Clarence Miller, talsmaður foreldra bresku stúlkunnar Madeleine McCann, segir foreldrana nógu raunsæja til að gera sér grein fyrir því að hugsanlegt sé að hún sé látin. Fram til þessa hafa foreldrarnir og fyrri talsmenn þeirra sagt að þau væru algerlega sannfærð um að hún væri enn á lífi. Þetta kemur fram á fréttavef Berlingske Tidende.

„Þau hafa ekki gefið upp vonina um að hún sé enn á lífi og að einhver hugsi um hana einhvers staðar. Það liggur hins vegar í eðli mannsins að óttast það versta og því hafa þau mikla þörf fyrir að komast að því hvað orðið er um hana,” segir hann.

Madeleine hvarf úr sumarleyfisíbúð fjölskyldunnar í Portúgal þann 3. maí síðastliðinn og hafa foreldrar hennar fengið réttarstöðu grunaðra í málinu. Þau neita hins vegar alfarið að vera viðriðin hvarf hennar og segja að henni hafi verið rænt.

Upphaflega leituðu hundrað lögreglumenn að stúlkunni en nú fara sex rannsóknarlögreglumenn með rannsókn málsins í Portúgal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka