Útgönguspá bendir til sigurs dönsku stjórnarflokkanna

Danir standa í biðröð á kjörstað í Kaupmannahöfn.
Danir standa í biðröð á kjörstað í Kaupmannahöfn. Reuters

Útgönguspár, sem birtar hafa verið í Danmörku þegar enn eru tveir klukkutímar þar til kjörstöðum verður lokað, benda til þess að stjórnarflokkarnir fari með sigur af hólmi í þingkosningunum í dag.

Samkvæmt spá, sem stofnunin Zapera og fríblaðið MetroXpress stóðu fyrir, fá stjórnarflokkarnir þrír, Venstre, Íhaldsflokkurinn og Danski þjóðarflokkurinn, samtals 89 þingsæti í Danmörku af 175 en þrír stjórnarandstöðuflokkar, Jafnaðarmannaflokkurinn, Sósíalíski þjóðarflokkurinn og Det Radikale Venstre, 79 þingsæti.

Alls sitja 179 þingmenn á danska þinginu og eru 175 kjörnir í Danmörku en fjórir í Færeyjum og á Grænlandi. Gangi spáin eftir þarf ríkisstjórn Anders Fogh Rasmussens, forsætisráðherra, að minnsta kosti að fá einn þingmann kjörinn í sjálfsstjórnarlöndunum til að hafa meirihluta á þingi og þurfi ekki að reiða sig á flokkinn Ny Alliance, sem býður í fyrsta skipti fram í kosningunum nú.

Samkvæmt útgönguspánni, sem byggð er á svörum 1755 kjósenda, kemur Einingarlistinn ekki manni á þing en til þess þurfa flokkar að fá 2% af heildaratkvæðum.

Önnur útgönguspá, sem Megafon gerði fyrir sjónvarpsstöðina TV2, bendir til þess að stjórnarflokkarnir þrír fái 87 þingsæti í Danmörku og stjórnarandstöðuflokkarnir 83. Þá fær Ny Alliance 5 þingsæti og gæti því ráðið því hvor fylkingin fer með völdin á næsta kjörtímabili.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka