Omar Osama bin Laden, sonur Osama bin Laden og bresk eiginkona hans hyggjast fara í kynningar- og friðarferð á hestbaki um Norður-Afríku. Segjast þau ætla sér að verða sjálfskipaðir sendiherrar á milli múslíma og Vesturlandabúa.
„Þetta snýst um það að breyta hugmyndum Vesturlandabúa. Mjög margir halda að Arabar, og þá sérstaklega synir Osama, séu allir hryðjuverkamenn. Það er ekki satt,” segir Omar í viðtali við AP fréttastofuna.
Omar, sem er 26 ára, er einn af nítján börnum bin Ladens og þykir líkjast honum mjög. Bandaríska leyniþjónustan segir hann son bin Ladens og fyrstu eiginkonu hans Najwa og að hann hafi alist upp hjá föður sínum í Súdan og flutti þaðan með honum til Afganistans árið 1996. Þar segist Omar hafa fengið þjálfun í búðum al Qaeda samtakanna en að árið 2000 hafi hann ákveðið að leita annarra leiða til að þjóna íslam.
„Ég vil ekki þurfa að berjast endalaust. Mig langar til að finna aðra leið og sú leið getur einmitt falist í því sem við erum að gera núna, þ.e. að tala saman segir hann. Hann fordæmir þó ekki aðgerðir föður síns en segist telja aðrar leiðir betri til varnar íslam en hernað.
„Omar telur sig geta orðið sáttasemjara,” segir eiginkona hans Zaina Alsabah. “Hann er einn hinna fáu í heiminum sem eru færir um þetta.”
Omar segist hins vegar ekki hafa verið í sambandi við föður sinn frá því hann yfirgaf Afganistan. „Hann er ekki í tölvupóstsambandi og er ekki með síma. Hefði hann eitthvað slíkt myndu þeir finna hann," segir hann.
A.m.k. tveir synir Osama bin Ladens, Hamza og Saad, eru taldir áhrifamiklir innan al Qaeda samtakanna. Hamza er talinn dvelja í landamærahéruðum Afganistans og Pakistans líkt og faðir hans en Saad er talinn vera í Íran, hugsanlega í haldi þarlendra yfirvalda.
Önnur börn bin Ladens eru hins vegar ekki talin tengjast starfsemi samtakanna. Þá var honum útskúfað af stórfjölskyldunni eftir að hann var sviptur ríkisborgararétti í Sádi-Arabíu vegna hryðjuverkastarfsemi árið 1994 en bin Laden var einn af fimmtíu börnum föður síns.
Það vakti heimsathygli er Omar gekk að eiga Alsabah á síðasta ári en hún er bresk og hét þá Jane Felix-Browne. Alsabah, sem er 52 ára, hefur verið gift fimm sinnum og á fimm barnabörn.