Kennedy fjölslyldan klofin í afstöðu sinni

Caroline Kennedy Schlossberg og Maria Shriver, með Michelle Obama, eiginkonu …
Caroline Kennedy Schlossberg og Maria Shriver, með Michelle Obama, eiginkonu Barack Obama, og sjónvarpskonunni Oprah Winfrey. AP

Maria Shriver, eiginkona Arnold Schwarzeneggers ríkisstjóra Kaliforníu, sem af Kennedy-ættinni, lýsti í gær yfir stuðningi við Barack Obama, sem forsetaframbjóðanda bandaríska demókrataflokksins. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Shriver sagði á kosningafundi Obama í Los Angeles að Kaliforníuríki væri miðstöð breytinga. „Ég bið ykkur um að fara og fylgja hjartanu. Verið stolt af því að gera það og munið að það sem gerist í Kaliforníu gerist í landinu öllu,” sagði hún og beindi orðum sínum til kjósenda.

„ég er stolt af því að standa hér ekki bara með þessum konum, heldur ykkur öllum, fólki af ólíkum kynþáttum og á ólíkum aldri, jafnt demókrötum sem óháðum, vegna þess að þið trúið. Þið trúið á hvert og eitt ykkar og ykkur sjálf og þið trúið því að þið hafið fundið mann sem trúir á ykkur." 

Áður hafa Caroline Kennedy Schlossberg, dóttir John F. Kennedy fyrrum Bandaríkjaforseta og Edward Kennedy, bróðir hans lýst stuðningi við Obama.

Kathleen Kennedy Townsend, fyrrum ríkisstjóri í Maryland og dóttir Roberts Kennedy fyrrum dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og systkini hennar Bobby og Kerry hafa hins vegar lýst stuðningi við Hillary Clinton.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert