Leiðtogar Evrópusambandsríkja lýsa yfir áhyggjum af efnahagsmálum um allan heim, og þá sérstaklega vegna mikillar hækkunar á verði hráolíu, ólgu á mörkuðum, og samdrætti í Bandaríkjunum. Samt sem áður ríkir bjartsýni um að efnahagur í Evrópu muni standast niðursveifluna.
Leiðtogafundur Evrópuríkja stendur nú yfir í Brussel, og sagði forsætisráðherra Ítala, Romano Prodi, á blaðamannafundi að leiðtogar hefðu byrjað á umræðum um efnahagsmál og lýst áhyggjum af markaðssveiflum sem hafa leitt til mikillar hækkunar á evrunni, olíu og gulli.
Forsætisráðherra Lúxembúrgar, Jean-Claude Juncker, sagði Bandaríkin vera á barmi kreppu en sagðist þó ekki telja að ástandið myndi vara lengi. „Það er ekki gott fyrir Evrópuríkin, en ástandið þar mun ekki draga Evrópu niður með sér," sagði Juncker.
Bandaríkjastjórn reyndi í dag að fullvissa fjárfesta að Hvíta húsið viðhaldi stefnu um sterkan dollar, og að Bush muni ekki breyta um stefnu í þeim málum.