„Svarta ekkjan“, eins og hún hefur verið kölluð í þýskum fjölmiðlum, var í dag dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir morð á fjórum auðugum mönnum. Mennirnir voru aldraðir og veikburða en þeir höfðu um tíma leitað þjónustu konunnar en hún var vændiskona.
Hin 69 ára gamla Lydia Lassen-Berge var þó ekki ein að verki. Vitorðsmaður hennar, Siegmund Schlufter, var dæmdur í 12 ára fangelsi. Þótti brot Lassen-Berge svo alvarlegt að ákveðið var að hún hlyti ekki möguleika á reynslulausn að 15 árum liðnum, eins og venjan er skv. þýskum lögum.
Morðin áttu sér stað á árunum 1994-2000 en ekki komst upp um tvíeykið fyrr en Schlufter játaði morðin fyrir lögreglunni í fyrra. Framdi hann verknaðinn en að beiðni Lassen-Berge.
Lassen-Berge kynntist fórnarlömbunum í gegnum auglýsingar í bæjarblöðum. Þar lýsti hún sér sem umönnunarmanneskju fyrir eldri herramenn. Þá sagðist hún vera ekkja á sextugsaldri.
Lassen-Berge segist hafa valið sérstaklega úr þá umsækjendur sem voru auðugir. „Það voru margir menn sem sóttu um. Ég valdi þá eftir tekjum. Af hverju hefði ég átt að velja fátækan ef ég gæti fengið ríkan?“ Hún segist hins vegar ekki hafa komið nálægt morðunum. Þar hafi Schlufter verið einn að verki, rekinn áfram af afbrýðisemi. Þýskir fjölmiðlar hafa lýst Schlufter sem heldur einföldum manni.
Lík fyrsta fórnarlambsins fannst, að hluta til brennt, við vegkant í júní árið 1994. Samkvæmt þeim sem með rannsókn málsins fóru hafði honum verið gefin róandi lyf og í kjölfarið kæfður með plastpoka.Hin þrjú fórnarlömbin hlutu svipuð örlög. Þeim voru gefnar samlokur og súpur sem lyfjum hafði verið blandað út í. Lassen-Berge hafði gifst einu fórnarlambanna og var upphaflega talið að sá hefði látist af náttúrulegum orsökum.
Alls annaðist Lassen-Berge 15 karlmenn og fékk fyrir það gjöld og gjafir að andvirði tæplega 90 millj. króna.