Tvítugur Dani varð að bíða alla síðustu nótt eftir að verða bjargað úr bil sínum en hann sat fastur i bílnum eftir að hafa ekið honum inn í garð við einbýlishús í Hammershøj á Jótlandi. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Óhappið mun hafa átt sér stað um klukkan eitt í nótt og heyrði íbúi hússins þá brak og bresti. Hann lét lögreglu vita en sá ekkert út um glugga og var því málið látið kyrrt liggja.
Losa þurfti manninn úr bílflakinu er birti. Hannnn mun vera illa haldinn, slasaður og mjög kaldur. Hann er hins vegar ekki talinn í lífshættu.
Í gær baðst lögregla í Danmörku opinberlega afsökunar á því að hafa ekki sinnt athugasemdum borgara sem hringdi fjórum sinnum í lögreglu vegna hávaða í nærliggjandi íbúð. Var viðkomandi beðinn m að athuga málið sjálfur jafnvel þótt lögreglumenn á vakt væru tiltækir. Síðar kom í ljós að íbúi íbúðarinnar var vopnaður og hélt konu fanginni í íbúðinni.