Búrma andvígt mannréttindaeftirliti

Flögg ASEAN ríkjanna fyrir utan ráðstefnusalinn í Singapúr þar sem …
Flögg ASEAN ríkjanna fyrir utan ráðstefnusalinn í Singapúr þar sem ríkin funda nú. Reuter

Herstjórn Búrma hefur látið í veðri vaka að hún muni setja sig upp á móti öllum tilraunum til að gefa mannréttindastofnun Suð austur Asíusamtakanna, ASEAN, vald til eftirlits eða rannsókna á svæðinu.

Nefnd háttskipaðra embættismanna í ASEAN byrjaði að funda á mánudag og er tilgangurinn að stofna mannréttindaarm samtakanna. Framtíðarhlutverk, vald og uppbygging mannréttindastofnunarinnar munu verða skilgreind og niðurstöður svo lagðar fyrir fund leiðtoga aðildarríkjanna í desember.

Utanríkisráðherra Búrma sagði hins vegar á fundi nefndarinnar í gær að mannréttindastofnunin skyldi halda fast við þá stefnu samtakanna að skipta sér ekki af innanríkismálum aðildarlandanna.

Embættismaðurinn sem tjáði sig um þessar mótbárur Búrma vildi ekki láta nafns síns getið.

Herstjórn Búrma hefur verið harðlega gagnrýnd af Vesturlöndum fyrir mannréttindabrot og jafnvel nokkrum ASEAN löndum. Hún hefur alltaf skýlt sér á bak við stefnu ASEAN ríkjanna og komið sér þannig hjá öllum tilraunum utanaðkomandi ríkja til að hafa áhrif á mannréttindamál í landinu.

Það hefur þegar verið ákveðið að mannréttindastofnun ASEAN muni ekki hafa vald til að setja á viðskiptahömlur eða sækja til saka þá sem brjóta lög. Ef mótmæli Búrma verða tekin til greina mun stofnunin verða jafnvel enn valdaminni.

Meirihluti ASEAN ríkjanna, með leiðtoga Indónesíu, Flippseyja og Tailands í fararbroddi, tjáði nefndinni að stofnunin ætti að minnsta kosti að hafa vald til eftirlits og veita ráðgjöf þegar mannréttindi eru brotin.

Ekki náðist embættismenn frá Búrma til að tjá sig um þetta en þeir hafa áður sagt að mannréttindastofnunin ætti eingöngu að sinna ráðgjafahlutverki og að hún ætti ekki að áfellast eða niðra neina ASEAN þjóð.

Stofnun mannréttindastofnunar ASEAN er hluti af nýrri stofnskrá samtakanna sem miðar að því að byggja samtökin á reglum.

Aðildarríki ASEAN eru Brunei, Kambódía, Indónesía, Laos, Malasía, Búrma, Filippseyjar, Singapúr, Taíland og Víetnam.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka