Óvenjulegt hneykslismál er nú komið upp í Ísrael en handskrifuð bæn, sem Barack Obama, forsetaframbjóðandi, stakk í rifu á Grátmúrnum í Jerúsalem þegar hann var í heimsókn í Ísrael í vikubyrjun, komst í hendurnar á blaðinu Ma'ariv og birtist þar.
Enginn veit hver fjarlægði bænina úr múrnum og kom henni til blaðsins. En háttsettir rabbínar hafa gagnrýnt þetta. Shmuel Rabinovitz, sem hefur yfirumsjón með Grátmúrnum, segir að skrifleg bæn sé einkamál milli þess sem biður og Guðs og því hafi verið afar óviðeigandi að fjarlægja blaðið sem Obama stakk í múrinn.
Bæn Obama er afar almenn. Þar biður hann Guð að halda verndarhendi yfir sér of fjölskyldu sinni og gefa sér visku til að breyta rétt.
Tvisvar á ári eru miðarnir, sem stungið er í Grátmúrinn, fjarlægðir og þeir brenndir ólesnir.