Fyrirburi fannst á lífi í líkhúsinu

Mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Stúlkufyrirburi sem úrskurðaður var andvana fæddur fannst á lífi í kæligeymslu líkhúss í Ísrael, sex klukkustundum síðar. Litlar líkur voru taldar á því að barnið lifði af.

Móðir stúlkunnar var flutt í snarhasti á spítala í Ísrael í morgun. Hún var þá með mikla verki og blæðingar. Læknar úrskurðuðu að stúlkubarnið sem fæddist væri andvana en móðirin var aðeins búin að ganga með barnið í 23 vikur.

Framkvæmdastjóri spítalans sagði fjölmiðlum að fjölskyldan hefði byrjað að undirbúa útför barnsins. Þegar farið var að sækja agnarsmátt líkið kom hins vegar í ljós að barnið andaði og hægt var að finna veikan hjartslátt. Barnið sem vó aðeins 600 grömm var flutt þegar í stað á vökudeild.

Framkvæmdastjórinn sagði að líkurnar á að barnið lifði af væru mjög, mjög litlar í ljósi meðgöngutímans.

Barnið lifði í nokkrar klukkustundir. Dánarorsök verður ekki kunn fyrr en barnið verður krufið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka