Japanska lögreglan vill að handtökutilskipun verði gefin út á hendur þremur liðsmönnum bandarísku samtakanna Sea Shepherd, en þeim er gert að sök að hafa ráðist á japönsk hvalveiðiskip á síðasta ári.
Kyodo-fréttastofan hefur eftir ónefndum rannsóknarlögreglumönnum í Tókýó að yfirvöld hafi farið fram á það við japanskan dómstól að gefin verði út handtökutilskipun á hendur mannanna. Þá kemur fram að lögreglan hyggist setja þá á lista eftirlýstra glæpamanna.
Ekki liggur fyrir hvort handtökutilskipunin verði gefin út eður ei.
Japanska ríkisútvarpið NHK segir að lögreglan vilji handtaka tvo Bandaríkjamenn, sem eru 41 árs og 30 ára, og 28 ára gamlan Breta.
Lögreglan segist hafa borið kennsl á mennina á myndbandsupptöku þar sem þeir sjást vinna spjöll á japönsku hvalveiðiskipi í febrúar 2007.