Borgarstjórinn í New Orleans hefur hvatt alla íbúa borgarinnar, sem eru um 240.000, til að yfirgefa hana áður en fellibylurinn Gústav, sem borgarstjórinn kallaði „fárviðri aldarinnar,“ kemur yfir borgina. Óttast er að vindhraðinn fari í allt að 69 metra á sekúndu.
Engar fregnir bárust af manntjóni á Kúbu, þar sem Gústav gekk yfir í nótt, en talsverðar skemmdir urðu. Heldur dró úr styrk veðursins er það fór yfir eyjuna, en veðurfræðingar telja að Gústav, líkt og Katrina fyrir réttum þrem árum, muni styrkjast á ný á leið sinni yfir Mexíkóflóa.