Tvær bílsprengjur springa á Spáni

Tíu manns særðust lítillega þegar bílsprengja sprakk fyrir utan lögreglustöð í strandbænum Ondarroa í Baskalandi á Spáni í nótt.

Talið er að aðskilnaðarhreyfing Baska, ETA, beri ábyrgð á árásinni. Talsmaður lögreglunnar sagði að enginn vafi léki á því að markmiðið hafi verið að drepa eins marga og mögulegt væri með sprengjunni. Þrír þeirra sem særðust voru lögregluþjónar en aðrir voru vegfarendur.

Nokkrum klukkustundum áður sprakk önnur bílsprengja nærri banka í héraðshöfuðborginni, Vitoria. Enginn særðist í þeirri árás þar sem lögreglu tókst að rýma svæðið í tíma eftir að þeim barst símtal þar sem varað var við árásinni. Miklar skemmdir urðu á nærliggjandi byggingum.

Talið er að um 800 manns hafi látist í árásum Baska undanfarna þrjá áratugi. 

Yfirvöld í Baskalandi munu leggja fram formlega kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu eftir nokkra daga vegna neitunar spænskra yfirvalda á því að halda kosningar um framtíð Baskalands.

Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert