Þrír danskir lögreglumenn voru í dag dæmdir í fjörutíu til sextíu daga fangelsi fyrir að berja sautján ára pilt sem tók þátt í mótmælaaðgerðum við Ungdomshuset í Kaupmannahöfn í mars á síðast ári.
Mennirnir voru allir fundnir sekir um að hafa barið piltinn með kylfum á grundvelli vitnisburðar tveggja vitna sem sögðust hafa horft á lögreglumennina berja piltinn út um glugga heimila sinna. Þá voru tveir þeirra sakfelldir fyrir að hafa haft í hótunum við hann í lögreglubíl eftir að hann var handtekinn
Lögmaður eins lögreglumannanna hefur þegar áfrýjað dómnum en lögregla segir ákvörðun ekki liggja fyrir um það hvort lögreglumönnunum verði sagt upp störfum. Þeir hafa þegar verið fluttir til í starfi.
Lögreglumennirnir neita allir að hafa barið piltinn með kylfum. Þeir voru einnig sakaðir um að hafa barið annan mann með kylfum en það þótti ósannað.