Náðaður eftir 22 ára bið á dauðadeild

Umaru Musa Yar’Adua, forseti Nígeríu, náðaði í gær tæplega sextugan mann sem beðið hefur aftöku á dauðadeild í 22 ár.  Maðurinn var dæmdur fyrir vopnað rán og hefur setið í fangelsi í Lagos í aldarfjórðung.

Ákvörðun um náðun mannsins kemur í kjölfar háværrar gagnrýni mannréttindasamtakanna Amnesty International á réttarkerfi Nígeríu. Amnesty hefur ítrekað hvatt stjórnvöld í Nígeríu til að endurskoða refsiréttarkerfið og beitingu dauðarefsingar.

Nígería er fjölmennast Afríkuríkjanna en þar búa yfir 140 milljónir manna. Samkvæmt upplýsingum Amnesty International eru nú 725 karlmenn og 11 konur á dauðadeildum í fangelsum landsins.

Þrjátíu og fimm þessara fanga hafa beðið aftöku á dauðadeildum í meira en 15 ár. Samkvæmt upplýsingum Amnesty hafa að minnsta kosti 22 fangar verið teknir af lífi í Nígeríu síðustu tíu ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka