Kínverjar hafa endurnýjað kaupsamninga sína á nikkel og sykri frá Kúbu, ásamt því sem þeir munu senda mat til eyjarinnar. Hu Jintao Kínaforseti er nú í opinberri heimsókn til Kúbu til að ræða leiðir til að auka viðskipti ríkjanna.
Matarsendingarnar koma sér vel enda stutt síðan fellibylurinn Ike olli mikilli eyðileggingu á Kúbu.
Hu lagði í gær blómsveig að minnismerki um frelsishetjuna Jose Marti í Havana, ásamt því að hitta hinn aldna fyrrverandi Kúbuleiðtoga Fidel Castro.
Hét Kínaforseti um 80 milljónum dala, rösklega 11 milljörðum íslenskra króna, til uppbyggingar og nútímavæðingar sjúkrahúsa á eyjunni.
Alls kaupa Kínverjar 400.000 tonn af sykri frá Kúbu ár hvert og um helminginn af 75.000 tonna nikkelvinnslu eyjarinnar.
Hu sagði Castro hafa verið fullan af orku en myndir Xinhua-fréttastofunnar þykja hins vegar sýna hruman öldung sem hefur glatað þrótti sínum.
Kúbverjar eiga von á fleiri góðum gestum því að í næstu viku mun Dmítrí Medvedev Rússlandsforseti koma í opinbera heimsókn til að ræða samskipti og verslun ríkjanna.
Alls hafa ríkin undirritað tugi verslunarsamninga en ekki hefur verið gefið upp um efni þeirra allra á þessari stundu.
Nánar er fjallað um málið hér.