Þýskir dómstólar segja að of stór brjóst séu ekki skilgreind sem sjúkdómur. Því sé hinu opinbera því ekki skylt að greiða aðgerðir vegna brjóstaminnkunar.
Tæplega fertug kona krafði ríkið um greiðslu vegna brjóstaminnkunar en fjölmargir læknar höfðu ráðlagt aðgerðina. Konan þjáðist af stöðugum bakverkjum og var auk þess skotspónn bæjarbúa vegna gríðarstórra brjósta sinna. Kröfu konunnar var hafnað og fór hún því með málið fyrir dómstóla. Héraðsréttur í Darmstadt hafnaði kröfunni og áfrýjaði hún til æðra dómstigs.
Í dómsorði segir að ríkið geti aðeins tekið þátt í kostnaði við slíkar aðgerðir ef brjóstastærðin teljist líkamleg afmyndun eða valdi öðrum heilsufarsvandamálum. Þá segir að bakverki megi aðeins rekja til of stórra brjósta ef verulegt ósamræmi er milli stærðar þeirra og líkamsvaxtar viðkomandi. Það átti ekki við í þessu tilviki að mati dómara. Konan sem um ræðir telst í yfirvigt en hún er 178 sentímetra há og 116 kíló að þyngd.
Fyrir rúmum fjórum árum úrskurðaði þýskur dómstóll að heilbrigðiskerfi landsins ætti ekki að standa straum af brjóstaðagerðum, hvorki minnkun né stækkun. Staðlar væru engir til fyrir stærð eða lögun brjósta. Sálarflækjur sem rekja mætti til stærðar eða lögunar brjósta yrði að leysa með viðtalsmeðferð. Samkvæmt þýskum lögum er kostnaður vegna viðtalsmeðferðar hjá sálfræðingi greiddur af ríkinu og gildir þá einu hvort hann er umtalsvert hærri en kostnaður við minnkun brjósta.