Tugir handteknir í óeirðum

Lögregla í Aþenu í Grikklandi handtók 87 manns í gærkvöldi eftir að ungmenni stóðu fyrir óeirðum í miðborginni. Flestir voru handteknir fyrir skemmdarverk, sem unnin voru á verslunum og bönkum.

Tólf lögreglumenn særðust og að minnsta kosti 10 úr röðum mótmælenda voru fluttir á sjúkrahús vegna öndunarerfiðleika eftir að lögreglan beitti táragasi.

Lögreglan segir í yfirlýsingu, að sumir úr röðum mótmælenda hefðu ráðist á lögreglumenn vopnaðir sverðum og valslöngum, sem stolið var úr vopnaverslun í Aþenu.

Mótmælendur réðust einkum á tákn auðs og valda, svo sem verslanir, banka og stjórnarbyggingar. Alls voru slökkviliðsmenn í Aþenu kallaðir út 190 sinnum í gærkvöldi og slökktu elda í 49 skrifstofubyggingum, 47 verslunum, 14 bönkum, 20 bílum og þremur ráðuneytisbyggingum.  Þá var kveikt í borgarjólatrénu á  Syntagmatorgi í miðborginni.

Óeirðir voru einnig í fleiri borgum, svo sem  Þessalóníku í norðurhluta landsins, Patras, Larissa, Canee á Krít og Joannina.

Enn voru nokkrar helstu verslunargötur Aþenu lokaðar í morgun og borgarstarfsmenn fjarlægðu brunnið sorp, glerbrot og múrbrot  í gangstéttum.

Prokopis Pavlopoulos, innanríkisráðherra, bar í gærkvöldi lof á lögreglu landsins fyrir það hvernig hún hefði brugðist við en ríkisstjórnin sætir hins vegar harðri gagnrýni í fjölmiðlum í dag.

„Landið er í upplausn vegna óábyrgrar ríkisstjórnar," segir blaðið  Eleftherotypia í leiðara. Blaðið Ta Nea sagði: Lögreglan var fjarverandi þar sem skemmdarverkin voru framin.

Costas Karamanlis, forsætisráðherra, mun eiga fund með  Karolos Papoulias, forseta landsins í dag. Hann ætlar einnig að hitta alla stjórnmálaleiðtoga landsins að máli til að ræða um ástandið.  Talsmaður ríkisstjórnarinnar vísaði á bug fréttum um að verið væri að íhuga að setja herlög.

Óeirðirnar hófust eftir að lögreglumaður skaut 15 ára gamlan dreng,  Alexis Grigoropoulos, til bana á laugardag. Grigoropoulos var í hópi drengja sem grýttu lögreglubíl í úthverfi Aþenu. Útför hans fer fram í dag og er óttast að ný óeirðaalda brjótist út í kjölfarið.

Verkalýðsfélög hafa boðað til allsherjarverkfalls á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert