Fyrsta farþegaflugvélin frá Evrópu til Íraks í 18 ár lenti í dag í Bagdad. Flugsamgöngur milli Íraks og Evrópu hafa legið niðri frá því að Sameinuðu þjóðirnar beittu Írak refsiaðgerðum í kjölfar innrásar Saddams Husseins, fyrrverandi forseta Íraks, í Kúveit 1990.Um borð í flugvélinni, sem flaug frá Svíþjóð, voru 150 farþegar. Gert er ráð fyrir fleirum erlendum flugvélum til Íraks næstu tvo daga, þar á meðal flugvél frá Hong Kong, að því er samgönguráðherra Íraks, Amer Abduljabbar Ismail, greindi fréttamönnum frá í dag. Samgönguráðuneytið í Írak og flugfélagið Air France-KLM undirrituðu á þriðjudaginn bráðabirgðasamkomulag sem gerir meðal annars ráð fyrir enduruppbyggingu flugvallarins í Bagdad og að teknar verði upp á ný flugsamgöngur frá ýmsum stöðum í Evrópu til Íraks.