Birt hefur verið hljóðupptaka með ávarpi Ayman al-Zawahiri, einum æðsta leiðtoga al Qaeda samtakanna, þar sem hann heitir hefndum vegna hernaðar Ísraela á Gasasvæðinu. Segir hann árásir Ísraela gjöf frá Barack Obama, nýkjörnum næsta forseta Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Í ávarpinu, sem beint er til íbúa Gasasvæðisins, segir hann hernað Ísraela vera einn hlekk í keðju krossfaraárása gegn íslam. Hann sé embættistökugjöf frá Obama og svikarnaum Hosni Mubarak Egyptalandsforseta.
Segir hann nú vera að koma í ljós að Obama, sem hylltur hafi verið sem frelsari og tákn nýrra tíma í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum, sé fær um að drepa börn á Gasasvæðinu án nokkurrar miskunnar eða samúðar.
Obama sagði í gær að hann hefði miklar áhyggjur af mannfalli á Gasasvæðinu og í Ísrael. Þá hét hann því að Obama myndi leggja höfuðáherslu á að leita lausna í deilum Ísraela og Palestínumanna eftir að hann tekur við forsetaembættinu.
Var það í fyrsta sinn sem hann tjáði sig opinberlega um átökin á Gasasvæðinu sem kostað hafa á sjötta hundrað manns lífið á undanförnum ellefu dögum. Hann hafði fram að því sagt að einungis einn forsæti gæti talað fyrir hönd Bandaríkjanna á hverjum tíma.