Sængurkonur í þróunarlöndunum í hættu

Í þróunarlöndunum eru líkur á því að kona deyi við …
Í þróunarlöndunum eru líkur á því að kona deyi við barnsburð 1 á móti 76 Reuters


Konur í fátækustu ríkjum heims eru 300 sinnum líklegri til að deyja við barnsburð eða af orsökum sem rekja má til þungunar en konur í iðnríkjum, samkvæmt árlegri skýrslu Barnahjálpar Sameinu þjóðanna (UNICEF) um stöðu barna í heiminum, State of the World's Children.

Auk þess er barn, sem fæðist í þróunarlandi, 14 sinnum líklegra til að látast á fyrstu mánuðum ævi sinnar en barn sem fæðist í iðnvæddu ríki.
 
Góðar aðstæður á Íslandi

Í skýrslunni er að finna lista yfir fjölda atriða sem varða velferð barna í heiminum, s.s. menntun, bólusetningu, heilsugæslu, aðhlynningu þungaðra kvenna, næringargjöf, barnaþrælkun, giftingar barna, útbreiðslu HIV/alnæmis og aðgang að hreinu vatni.

Þar sem upplýsingar um Ísland liggja fyrir má sjá að börn á Íslandi búa við mjög góðar aðstæður og kemur m.a. fram að Ísland er enn með lægstu tíðni barnadauða (undir 5 ára aldri) í heimi, ásamt Andorra, Liechtenstein, Lúxemborg, Singapúr og Svíþjóð, að því er segir í tilkynningu.
 
Heilsa og lífslíkur mæðra og ungabarna haldast í hendur þar sem margar af þeim aðferðum sem notaðar eru til að bjarga lífi mæðra gagnast nýfæddum börnum. Skýrslan skoðar þessi tengsl nánar og þau úrræði sem gætu minnkað muninn milli ríkra og fátækra landa í þessu tilliti.
 
"Á hverju ári deyr yfir hálf milljón kvenna af orsökum sem rekja má til þungunar og barnsburðar, þar á meðal 70 þúsund stúlkur og ungar konur á aldrinum 15 til 19 ára," sagði Ann M. Veneman, framkvæmdastjóri UNICEF, þegar skýrslan var kynnt í Jóhannesarborg í dag. „Síðan árið 1990 hafa 10 milljónir kvenna látist af þessum völdum."
 
Mæður og ungabörn eru berskjölduð á fyrstu dögum og vikum eftir fæðingu og er það sá tími sem hreinlæti, reglulegar heimsóknir heilbrigðisstarfsfólks og ráðgjöf um heilsu mæðra og ungabarna skiptir sköpum.

Ekki hefur dregið úr dauðsföllum kvenna við barnsburð

Á síðustu árum hafa lífslíkur barna aukist í mörgum þróunarlöndum en ekki hefur tekist að draga eins úr dauðsföllum kvenna við barnsburð. Barnadauði (undir 5 ára aldri) hefur lækkað um helming í Níger og Malaví á árunum 1990 til 2007. Tíðni barnadauða í Indónesíu er aðeins einn þriðji af því sem hún mældist árið 1990 og í Bangladess hefur hún fallið um meira en helming.
 
Sömu þróun er ekki að finna þegar kemur að heilsu og lífslíkum mæðra. Á sama tíma og barnadauði lækkar hjá börnum undir 5 ára á heimsvísu er hættan á dauðsfalli kvenna við barnsburð og meðal barna á fyrstu 28 mánuðunum í mörgum löndum enn mikil.

Í þróunarlöndunum eru líkur á því að kona deyi við barnsburð 1 á móti 76 samanborið við 1 á móti 8.000 meðal kvenna í iðnvæddum ríkjum. Um 99% dauðsfalla sem rekja má til þungunar og barnsburðar eiga sér stað í þróunarlöndunum. Þar eru barneignir meðal þess hættusamasta sem kona gengur í gegnum. Meirihluti dauðsfalla á sér stað í Afríku og Asíu þar sem frjósemi er mikil, vöntun er á þjálfuðu fólki til aðstoðar við barnsburð og heilsugæslan er veikburða.
 
Tíðni dauðsfalla kvenna við barnsburð er hæst í Níger, Afganistan, Síerra Leóne, Tsjad, Angóla, Líberíu, Sómalíu, Austur-Kongó, Gíneu-Bissá og Malí. Þá er hætta á dauðsfalli við barnsburð allt frá 1 á móti 7 í Níger til 1 á móti 15 í Malí.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka