Pólskur gísl afhöfðaður

Pakistanskir hermenn standa vörð fyrir framan forsetaskrifstofurnar í Íslamabad.
Pakistanskir hermenn standa vörð fyrir framan forsetaskrifstofurnar í Íslamabad. AP

Herskáir pakistanskir talibanar hafa sent frá sér myndband þar sem pólskur verkfræðingur, sem þeir höfðu tekið í gíslingu, var tekinn af lífi með afhöfðun. Ástæða þess að þetta var gert er að sögn hermdarverkamannanna sú, að yfirvöld í Íslamabad, höfuðborg Pakistans, neituðu að sleppa vígamönnum úr haldi.

Myndbandið, sem fréttamaður AFP kveðst hafa horft á, var gefið út einum degi eftir að talsmaður talibana í Pakistan sagði að menn sínir hefðu afhöfðað manninn, Piotr Stanczak, sem var rænt í norðvesturhluta Pakistan í september síðastliðinn.

Stanczak, sem vann í Pakistan fyrir pólskt orkufyrirtæki, var tekinn af vopnuðum mönnum í bænum Attock, um það bil 70 kílómetra norðvestur af Íslamabad. Bílstjórar hans og lífvörður voru hins vegar drepnir.

Aðstoðarutanríkisráðherra Póllands, Jacek Najder, sagði fyrr í dag að þarlend stjórnvöld væru enn að bíða eftir formlegri staðfestingu á því að Stanczak hefði verið myrtur af samtökunum Tehreek-e-Taliban Pakistan (TTP). Forsætisráðherrann, Donald Tusk, hefur áður lýst því yfir að hafa fengið óformlega staðfestingu á þessu.

Myndbandið sýnir að sögn AFP fréttastofunnar Stanczak sitja með krosslagða fætur á teppi. Þar les hann upp stutta yfirlýsingu á ensku, þar sem meðal annars er hvatt til þess að Pólland dragi um 1.100 manna herlið sitt út úr Afganistan. Í næsta atriði er búið að binda fyrir augu hans. Grímuklæddur maður sést þá skera af honum höfuðið með hnífi, á meðan tveir menn standa vörð fyrir aftan þá, miðandi AK-47 hríðskotabyssum að höfði hans.

Einn talibananna sést þá segja að Stanczak hafi verið drepinn vegna þess að talibönskum föngum hafi ekki verið sleppt úr haldi. Þá varar hann við því að aðrir erlendir gíslar gætu hlotið sömu örlög, án þess að tilgreina sérstaklega við hvaða gísla sé átt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka