Dómstóll í Eskilstuna í Svíþjóð hefur dæmt 44 ára gamlan hársnyrti í 10 ára fangelsi fyrir að hafa selt hundruðum ungmenna efnið tramadol sem flokkast undir fíkniefni. Ungmennin höfðu öll keypt efnið á netinu af hársnyrtinum sem hafði látið smygla því Svíþjóðar frá Indlandi með hársnyrtivörum, að því er greint er frá á fréttavef Dagens Nyheter.
Hársnyrtirinn hefur selt tramadol í mörg ár en það flokkaðist ekki undir fíkniefni fyrr en í desember 2007. Hársnyrtirinn hélt samt áfram að selja duftið á heimasíðu sinni.
Lögreglan afhjúpaði nær 450 kaupendur sem allir voru skráðir viðskiptavinir hjá hársnyrtinum. Aðgerð lögreglunnar kallaðist sléttujárn vegna starfs sölumannsins.
Tramadol er selt í töfluformi sem lyfseðilsskylt lyf í Svíþjóð. Mælt er með því að dagskammturinn fari ekki yfir 400 mg. Þeir sem keyptu duftið notuðu 350 til 750 mg á dag. Haft er eftir fulltrúa lögreglunnar að áhrifin af efninu séu svipuð áhrifum af morfíni.