Þeir Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Dmitrí Medvedev, forseti Rússlands, náðu á fundi í dag samkomulagi um að hefja viðræður um umfangsmikla fækkun kjarnorkuvopna. Obama mun heimsækja Rússland í júlí.
Í sameiginlegri yfirlýsingu forsetanna segir einnig, að þeir muni ræða um alþjóðlega samvinnu um eldflaugavarnir. Medvedev sagði eftir fundinn, að hann væri mjög bjartsýnn á að samvinna þjóðanna tveggja yrði góð.
Núverandi samkomulag milli þjóðanna um kjarnorkuvopn, svonefndur START samningur, sem gerður var upphaflega 1991, rennur út í desember og ætla ríkin að ræða um nýjan bindandi samning um fækkun kjarnorkuvopna.