Nemandi í efnafræði við Háskólann í Kaupmannahöfn bjó til hálft kíló af metaamfetamíni á tilraunastofu skólans.
Fíkniefnalögreglan í Kaupmannahöfn réðst inn í íbúð mannsins í gær. Þar fundust 14,6 grömm af metaamfetamíni. Talið er að maðurinn hafi, á tveggja ára tímabili, náð að búa til minnst 480 grömm af efninu. Samkvæmt danska vefmiðlinum bt.dk fundust fleiri fíkniefni í íbúðinni, þar á meðal LSD. Maðurinn, sem er 34 ára, var í kjölfarið hnepptur í 13 daga gæsluvarðhald.
„Þetta er mjög óþægilegt mál og tilefni til að við skoðum nánar starfsemina hérna hjá stofnuninni", segir Mikael Bols prófessor við skólann. Hann segir málið valda sér vonbrigðum. Um 400 nemendur eru við skorina en aðeins 50-60 hafa aðgang að þeim efnum sem nota þarf í fíkniefnaframleiðslu.